Nóa Siríus mótið 2014 hafið

Nóa Siríus mótið 2014 (Gestamót GM Hellis og Breiðabliks) hófst í kvöld. Keppendur eru 67 talsins og er mótið vel mannað með 22 alþjóðlegum titilhöfum. Meðal keppenda eru stórmeistarararnir Þröstur Þórhallsson og Stefán Kristjánsson en sá síðarnefndi sigraði einmitt Gestamótinu í fyrra.

IMG 9694b

Orri Hlöðversson leikur fyrsta leiknum fyrir Stefán Kristjánsson stórmeistara. 

IMG 9702b 

Kristján Geir Gunnarsson markaðsstjóri Nóa-Síríus lék fyrsta leiknum fyrir Sverri Örn Björnsson gegn Þresti Þórhallssyni stórmeistara. 

 

Mótið er samstarfsverkefni GM Hellis og Skákdeildar Breiðabliks og haldið í hinum vistlegu húsakynnum undir stúku Kópavogsvallar. Eins og nafnið bendir til er bakhjarl mótsins Nói Siríus sem leggur til verðlaun mótsins og laumar auk þess að keppendum gómsætum molum til að skerpa einbeitinguna.

 

Við setningu mótsins þakkaði Jón Þorvaldsson keppendum góðar undirtektir og bauð gesti velkomna. Orri Hlöðversson,  formaður Breiðabliks, lýsti velþóknun sinni á kröftugu starfi skákdeildar Breiðabliks undir forystu Halldórs G. Einarssonar og lauk lofsorði á glæsilegt mót. Orri og Kristján Geir Gunnarsson, markaðsstjóri Nóa-Siríus, léku síðan fyrsta leikinn á tveimur efstu borðum og þótti Kristjáni Geir miður að fá ekki að ráða því hverju hvítur lék. Var honum boðið sæti í mótinu að ári ásamt skákþjálfun í sárabætur!

IMG 9676b

Það hefur komið forvígismönnum mótsins á óvart hve vel það hefur mælst fyrir meðal skákmanna og hve fjölsótt það er. Engin snilld býr þar að baki heldur hefur einfaldega verið hlustað á óskir skákmanna og reynt að verða við þeim eftir bestu getu.

 

Ljóst er að mikill meirihluti skákmanna kýs að tefla aðeins einu sinni í viku og er mótið sniðið að þeim óskum. Jafnframt er alltaf parað fyrir næstu umferð morguninn eftir hverja umferð. Þá geta keppendur notið þess að undirbúa sig af kostgæfni og enda liggur fyrir að sumir keppendanna hafa jafn gaman af undirbúningnum og að tefla sjálfa skákina.

IMG 9718b

Vert er að taka fram að sem fyrr var sérstök áhersla lögð á að laða til mótsins skákmenn sem hafa verið lengi frá keppni á kappskákmótum, jafnvel áratugum saman. Þar má nefna kappa á borð við Elvar Guðmundsson, Davíð Ólafsson, Þráin Vigfússon, Magnús Teitsson, Sæberg Sigurðsson, Hrannar Arnarson og Arnald Loftsson.

 

Undirbúningsnefnd mótsins skipa:

Andrea Margrét Gunnarsdóttir

Einar Hjalti Jensson

Halldór Grétar Einarsson

Jón Þorvaldsson

Steinþór Baldursson

Vigfús Vigfússon. 

 

Sitthvað var um óvænt úrslit í fyrstu umferð. Ögmundur Kristinsson (2014) vann Andra Áss Grétarsson (2325). Gunnar Björnsson (2073) gerði jafntefli við Einar Hjalta Jensson (2347), Örn Leó Jóhannsson (1955) við Davíð Ólafsson (2316) og Vignir Vatnar Stefánsson við Halldór Brynjar Halldórsson (2233).

Úrslit í 1. umferð. 

Önnur umferð fer fram 16. janúar. Þá mætast m.a. Björn Ívar - Stefán Kr., Bragi - Þráinn, Þröstur Á - Karl, Þröstur Þ - Sigurður Páll og Lenka - Jón Viktor.

Pörun 2. umferðar

Næsta umferð fer fram 16. janúar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband