9.8.2011 | 22:21
Pistill um landskeppni við Færeyinga.
Áskell Örn Kárason formaður SA skrifar pistil um landskeppni Íslands og Færeyinga sem fram fór um nýliðna helgi. Hann er birtur hér fyrir neðan í heild sinni.
Áð í Höfða í Mývatssveit og nesti borðað.
Nú er nýlokið landskeppni við Færeyinga, hinni 17. í röðinni. Eins og fram hefur komið beið íslenska liði ósigur og var færeyski sigurinn nokkuð öruggur, a.m.k. þegar litið er á tölurnar.Þegar horft er til sögunnar má sjá að við Frónbúar höfum verið sigursælir í þessari keppni, en nú sýnast mér vera teikn á lofti um að þeirri sigurgöngu sé lokið, enda hafa frændur vorir í austri nú sigrað tvisvar í röð. Hefð er fyrir því að Skákfélag Akureyrar og Skáksamband Austurlands sjái um þessa keppni fyrir Íslands hönd og hafa flestir keppendur komið úr röðum þessara félaga, þótt engar formlegar reglur séu um val keppenda. Nú eru þessi félög heldur veikari en áður, en Færeyingar hafa verið að styrkjast. Við vitum við að þeir geta sent mun sterkari sveit en verið hefur; t.d. var aðeins einn af þeirra bestu skákmönnum í liðinu nú, John Rødgaard er 3. stigahæsti Færeyingurinn, en Sjúrður Thorsteinsson, (jú, nafnið er íslenskt, langafi hans fluttist frá Seyðisfirði til Klaksvíkur snemma á síðustu öld), sem tefldi á 2. borði, en í 16. sæti á færeyska listanum og þriðjaborðsmaður þeirra nr. 26.
Færeyingar dást af fegurð Mývatssveitar. Sigurður Daði og Sigurbjörn eru einnig á myndinni.
Í þetta sinn kom Goðinn, hið öfluga félag þeirra Þingeyinga, að keppninni í fyrsta sinn. Er ástæða til að ætla að þeir séu komnir til að vera með í þessum viðburði til framtíðar. En lítum á skákirnar og það hvernig þessar viðureignir þróuðust: Þau lið sem hér áttust við voru jöfn að styrkleika. Við Íslendingar vorum að vísu yfirleitt stigahærri, en það sýndi sig ekki í skákunum. Fyrri umferðin sem tefld var í boði Goðans á Húsavík, var mjög jöfn.
Arild Riverstad og Smári Ólafsson.
Við lentum í beyglu á tveimur fyrstu borðunum; Sigurður Daði stóðst ekki áhlaup öflugs peðamiðborðs andstæðingins, sem fórnaði manni fyrir þrjú peð snemma tafls. Sjálfum varð mér bumbult af peðsráni snemma tafls en hékk með naumindum á jafntefli. Á 3. og 4. borði unnum við góða sigra, en á neðri borðunum vorum við ekki sérlega farsælir, þótt bæði Sigurður Arnason og Mikael Jóhann ynnu sínar skákir. Jakob Sævar virtist eiga léttunnið tafl um tíma, en varð að sætta sig við skiptan hlut. Almennt voru Færeyingarnir glúrnari en við að grípa þau tækifæri sem buðust og niðurstaðan varð tap með minnsta mun 5-6, í viðureign þar sem sigurinn virtist ætla að lenda okkar megin um tíma. Óhætt er að segja að við heimamenn vorum ágætlega bjartsýnir þegar seinni umferðin hófst með ljúfri tónlist þeitta Friðriks Ómars og Jógvans í Hofi á sunnudaginn. Viðureignin var jöfn og tvísýn framan af, en svo kom fyrsta íslenska tapið þar sem Sigurður Arnarson spennti bogann of hátt, fórnaði manni og síðar skiptamun fyrir sókn sem ekki bar árangur. Hann var ekki fyrr búinn að leggja niður vopn, þegar tvær skákir sem litu vel út fyrir okkur snerust illa og staðan orðin 0-3. Í þeim skákum sem eftir var áttum við erfiða stöðu í a.m.k. tveimur, en vinningsmöguleika í öllum hinum skv. bjartsýnasta mati.
Bakhlutinn á Rúnari Sigurpáls og Halldór Brynjar fjær.
Sigur var því enn mögulegur ef allar heilladísir Norður-Atlantshafs myndu nú ganga í lið með okkur. En þær höfðu víst um annað að hugsa. Á þremur neðstu borðunum voru okkar menn í vígahug og telfdu allir til sóknar, en hinir vörðust vel og lyktað öllum skákunum með jafntefli. Á fyrsta borði var staðan tvísýn og líklega heldur lakari hjá okkar manni, en hann náði jöfnu. Rúnar og Viðar unnu sannfærandi sigra, en Þór stóð höllum fæti. Hann reyndi að grugga vatnið, en án árangurs. Að lokum mátti yðar einlægur gefast upp í vinningstilraunum sínum; öll staðan en engin leið til að brjótast í gegn. Þannig lauk þessu með verðskulduðum færeyskum sigri. Skv. hefð verður næst teflt í Færeyjum sumarið 2013.
Staðan eftir fyrri hlutann á Húsavík.
Víst er að ef við gyrðum okkur ekki í brók blasir þá við okkur þriðja tapið í röð. Við fögnum því að Goðamenn eru komnir til leika og vonandi halda Austfirðingar áfram sinni þátttöku, (í þetta sinn kom aðeins Viðar Jónsson úr þeirra röðum). Ekki er ólíklegt að fleiri félög þurfi að koma hér til sögu ef við ætlum að veita frændum okkar verðuga keppni í framtíðinni. Mín hyggja er að við þurfum að endurskoða mótshaldið allt til þess að svo verði. Fyrir öllu er hinsvegar að þessi sögulega og ánægjulega landskeppni geti haldið áfram; það er fátt skemmtilegra en að sækja Færeyinga heim og ávallt gaman að fá þá í heimsókn. Teir eru góðir drongir og góðir telvarar.
Myndir: Hermann Aðalsteinsson.
Flokkur: Spil og leikir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.